Halla Ingólfsdóttir heiti ég og er stolt af því að búa og tilheyra samfélaginu hér í Grímsey. Ég er fædd í Reykjavík en elst upp í litlu þorpi á suðausturlandi en á unglingsárum flyt ég á norðurland. Fyrir rúmlega 20 árum kem ég til Grímseyjar og voru þá örlög mín ráðin því síðan þá hefur Grímsey átt hug minn og hjarta. Það var eitthvað sem heillaði mig um leið og ég kom hingað, eyjan býr yfir töfrum sem erfitt er að lýsa með orðum Grímsey er þekkt fyrir mikið og fjölskrúðugt fuglalíf og eru hér milli
45 og 50 mismunandi fuglategundir yfir sumartímann. Lundinn nær samt einhvernveginn alltaf að stela senunni með sinni einstöku fegurð og litadýrð, en ekki síður fyrir það hvað gaman og áhugavert það er að fylgjast með hegðun og háttum hans.
Lundinn er af ætt svartfugla en þeir eru sjófuglar og eins og nafnið gefur til kynna þá kjósa þeir að verja lífi sínu í og á sjónum, en Lundinn kemur eingöngu í land í Grímsey til að eiga ungann sinn. Hann nálgast eyjuna síðustu dagana í mars en sest upp í bjargið í byrjun apríl ár hvert. Í áratugi hefur Gylfi Gunnarsson grímseyingur og skipstjóri á Þorleifi skráð í sjóbækur sínar hvenar hann sér lundann fyrst á sjónum á vorin við Grímsey og er það undartekningarlaust í kringum 2-4 apríl en hann hefur síðastliðin ár „sest upp“ eins og sagt er 8 apríl Erpur Hansen hjá Náttúrustofu Suðurlands byrjaði að gera rannsóknir á lundanum hér í Grímsey 2010 og hef ég verið svo heppin að hafa fengið að fylgjast með honum og þeim vísindamönnum sem hafa komið hingað með honum. Rannsóknirnar snúast meðal annars um að setja merki á lundann til að fylgjast með ferðum þeirra, þetta eru einhverskonar dægurritar sem skrá daglengdina og tímann. Ef þú veist bæði þá getur þú staðsett þá með ca. 180 km nákvæmni, nema nærri jafndægrum, þá dettur lengdargráðan út.
Einnig eru sett stálmerki sem voru í upphafi hugsuð til að rannsaka ferðir lundans, en eru í dag gagnlegri til að rannsaka lífslíkur
Þegar lundinn kemur til Grímseyjar á vorin bíður hann eftir maka sínum á sjónum, því lundinn er trúr maka sínum alla tíð. Fyrstu dagarnir eftir að þeir mæta fara í tiltekt og viðgerðir á holunni en hún getur oft verið illa farin eftir mikinn sjógang og veður hér yfir veturinn. Þegar allt er klárt verpa þeir einu eggi innst í holunni og skiptast á að vera heima og sitja á egginu og svo þegar unginn er komin skiptast þeir á að fara og veiða í matinn handa unganum sínum.
Um miðjan ágúst yfirgefur lundinn Grímsey og heldur til vetrardvalar.