Akureyri

Það er einhver annar bragur yfir Akureyri en öðrum bæjum á Íslandi. Þar finnur þú alla þá þjónustu sem hugurinn girnist í þægilegu umhverfi. Menningin blómstrar í bænum, þar er nægt úrval gisti- og veitingastaða, og líka hægt að kíkja í búðir þá sjaldan að veðrið er til vandræða.

Gestir bæjarins hafa stundum á orði að þeim finnist þeir vera komnir til útlanda þegar þeir koma til Akureyrar. Það er eitthvað öðruvísi við höfuðstað Norðurlands: Gömlu húsin í Innbænum bera danskri fortíð fagurt vitni, tignarleg fjöllin blasa við allt um kring, mannlífið er afslappað og ef þú lendir á rauðu ljósi þá brosir við þér rautt hjarta í götuvitanum.

Það búa aðeins um 19.000 manns á Akureyri. Umferðin er stresslaus og fáheyrt að argir bílstjórar flauti hverjir á aðra. Einhvern tímann var komist að þeirri vísindalegu niðurstöðu að á Akureyri taki aldrei meira en sjö mínútur að fara á milli staða. Í rauninni er óþarfi að nota bílinn innanbæjar og hægt að fara allt á tveimur jafnfljótum.

Á Akureyri finnur þú borgarlandslag í námunda við náttúruna. Það er kjörið að hafa bækistöð í bænum og skjótast í dagsferðir til austurs eða vesturs að skoða ýmsar helstu náttúruperlur landsins, svo sem Goðafoss, Hvítserk, Drangey, Dettifoss og Mývatn. Gönguleiðir í næsta nágrenni eru magnaðar, hægt að komast á hestbak, fara í hvalaskoðun, leigja kajak, fara í golf eða brettasiglingar. Það er eitthvað öðruvísi við Akureyri.