Minjasafnið á Akureyri

Safnið er í elsta bæjarhluta Akureyrar, Innbænum og Fjörunni.  Þar eru áhugaverðar og vel gerðar sýningar fyrir alla fjölskylduna. Safnið varðveitir muni og ljósmyndir sem tengjast lifnaðarháttum fyrri tíma í Eyjafirði og á Akureyri. Í sýningum er leitast við að gera sögu fjarðarins skil á sem bestan hátt til fræðslu og ánægju fyrir safngesti. Í safninu eru bæði grunnsýningar sem rekja sögu héraðsins og Akureyrar, ásamt skammtímasýningum um ýmis efni.
 
Fyrir framan safnið er einn elsti skrúðgarður landsins,  rúmlega aldargamall, sem er tilvalinn áningarstaður með bekkjum, borðum og stólum.  Í garðinum stendur Minjasafnskirkjan byggð 1846 sem er leigð út fyrir athafnir og tónleika.