Grenivík

Kauptúnið Grenivík stendur undir fjallinu Kaldbak sem er 1173 m hátt. Skemmtilegar gönguleiðir eru upp á Kaldbak, en fyrir þá sem kjósa léttari leiðir er Þengilhöfði ákjósanlegri en það er 260 m hátt fjall suður af Grenivík. Fleiri fjöll í byggðarlaginu er ögrandi að klífa svo sem Blámannshatt og Laufáshnjúk.

Þegar minnst er á Grenivík koma Fjörðurnar og Látraströnd fljótt upp í hugann. Á Látraströnd og í Fjörðum var byggð áður fyrr og eru þessar gömlu byggðir paradís göngumannsins og sífellt fleiri leggja leið sína á þetta svæði til að kynnast fjölbreyttri og fallegri náttúru og sögu forfeðra okkar sem bíður við hvert fótmál.

Byggðarlagið vekur sífellt meiri áhuga ferðamanna og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. Hestaleiga, húsdýragarður, gönguferðir um Fjörður og Látraströnd og snjótroðaraferðir upp á Kaldbak. Að auki er veiði í Fnjóská og Fjarðará í Hvalvatnsfirði.

Matvöruverslunin Jónsabúð er á Grenivík en þar er líka kaffi og veitingasala. Í Gamla prestshúsinu í Laufási er einnig veitingasala. Við grunnskólann er góð sundlaug og tjaldstæði. Í Hléskógum er bændagisting og tjaldstæði.

Það er vel þess virði að taka sér tíma til að staldra við utan hringvegarins og heimsækja byggðarlagið og njóta náttúrufegurðar og persónulegrar gestrisni heimamanna.