Grímsey

Grímsey er græn, grösug og einstaklega gjöful eyja. Frægust er Grímsey trúlega í hugum ferðamanna fyrir heimskautsbauginn og kemur fólk gjarnan langa leið, til þess eins að stíga norður fyrir baug.

Eyjan er 5,3 km2 að stærð. Hæst er hún 105 metrar og fjarlægð frá "Íslandi" er 41 km.

Mannlífið er kröftugt og bjart og eru Grímseyingar miklir gleðimenn sem vinna og skemmta sér af alhug. Góð sundlaug var vígð árið 1989. Eyjabúar versla í versluninni Búðinni, sem er einkarekin og er þar gott vöruúrval. Einnig eru tvö gistiheimili í Eyjunni og annað er opið allan ársins hring.

Ferjan Sæfari siglir frá Dalvík til Grímseyjar 3 daga í viku allt árið. Reglubundið flug með Flugfélagi Íslands er einnig þangað, 3 sinnum í viku yfir veturinn en sjö daga á sumrin.