Kópasker

Kópasker er vinalegt sjávarþorp í Núpasveit við austanverðan Öxarfjörð sem rekur sögu sína aftur til ársins 1879 er það varð löggildur verslunarstaður. Þorp myndaðist síðar í kringum starfsemi Kaupfélags Norður Þingeyinga sem stofnað var 1894. Fyrst risu vöruskemma og bryggja en verslunarhús var reist 1908 og fyrsta íbúðarhúsið 1912. Þorpið sækir nafn sitt til skers er fyrrum gekk út í sjóinn og en á því stendur nú hafnargarður.

Meginatvinnuvegur þorpsins er þjónusta við íbúa, nærsveitir og ferðaþjónustaStærsti atvinnuveitandi er sláturhúsið og kjötvinnslan Fjallalamb hf. Aðeins er um útgerð á Kópaskeri en hún er bundin við nokkra smábáta.

Á Kópaskeri er ýmis grunnþjónusta í boði, svo sem matvöruverslun, vínbúð, verkstæði, heilsugæslustöð, apótek, banki, póstur, heilsurækt, sjálfsali fyrir bensín, veitingasala og nokkrir gististaðir ásamt tjaldsvæði.

Ýmislegt er vert að gera og sjá á Kópaskeri. Á Snartarstöðum við Kópasker er einstök sýning á munum úr byggðarsafni N-Þingeyinga.  Þar er m.a. að finna mikið úrval hannyrða af ýmsum toga og merkilegt bókasafn. Í skólahúsinu er Skjálftasetrið, sem greinir í máli og myndum frá skjálftanum við Kópasker 1976, orskökum hans og áhrifum á mannvirki, landslag og mannlíf. Við Kópasker eru jafnframt áhugaverðar gönguleiðir og afar fjölbreytt fuglalíf.

Á hverju ári eru haldin Sólstöðuhátíð á Kópaskeri, í júní. Mikið er um að vera í þorpinu þessa helgi og gaman er að koma og upplifa menningu íbúa á þennan hátt.