Sauðaneshús

Prestsbústaðurinn á Sauðanesi, Sauðaneshús, er elsta steinhús í Þingeyjarsýslum. Það var byggt árið 1879 úr grágrýti sem flutt var langt að og höggvið á staðnum. Hlaðin steinhús af þessu tagi eru afar sjaldgæf á Íslandi og er Sauðaneshús því nánast einstakt á landsvísu. Í kringum 1957 fór Sauðaneshús í eyði og stóð það kalt og yfirgefið í nærri 40 ár.

Um 1990 var ákveðið að endurreisa húsið. Það var mikið verk enda húsið að hruni komið og þurfti því að reisa það aftur næstum frá grunni, stein fyrir stein, fjöl fyrir fjöl. Við endurgerðina, sem tók 11 ár, var reynt að nýta það sem enn var heilt og lögð áhersla á að nálgast eins og hægt var upprunalega mynd hússins.

Í dag hýsir Sauðaneshús sýninguna “Að sækja björg í björg”. Fyrri hluti þeirrar sýningar var opnaður sumarið 2020 og seinni hlutinn sumarið 2021. Á sýningunni má fræðast um lífið á Langanesi á þeim tíma sem búið var í Sauðaneshúsi og hvernig prestsbústaðurinn var í raun miðpunktur samfélagsins á svæðinu. Margt merkilegt fólk tengist Sauðanesi og eru upplýsingar um nokkra einstaklinga á sýningunni, auk þess sem fjallað er almennt um ýmis störf, til dæmis prestfrúarhlutverkið og stöðu vinnufólks.