Snartarstaðir

Safnið var opnað árið 1991 í gömlu skólahúsi og eru þar rúmlega 2000 munir til sýnis. 

Sýningin á Snartarstöðum einkennist af tvennu. Annars vegar er það mikið úrval af hannyrðum af ýmsum toga, svo sem útsaumur, vefnaður, prjónles, þjóðbúningar og margt fleira handunnið. Flestar hannyrðirnar voru unnar af konum af svæðinu. Hins vegar einkennist safnið af bókasafni hjónanna í Leirhöfn, Helga Kristjánssyni og Andreu Jónsdóttur. Árið 1952 gáfu þau sýslunni 9000 binda bókasafn sitt sem Helgi hafði sjálfur innbundið að stórum hluta. Hægt er að skoða bókasafnið og fræðast um Leirhafnarhjónin. Helga var margt til lista lagt og stóð m.a. fyrir stórmerkilegri húfugerð sem einnig er hægt að fræðast um á safninu.

Auk hannyrðanna og bókanna eru margir skemmtilegir munir til sýnis. Þarna eru hefðbundnar menningarminjar á borð við byssur, járnsmíði, trésmíði og ýmsa heimilismuni en einnig má sjá merkilega brunadælu, heimagerð leikföng og skemmtilega smámuni sem tilvalið er að gleyma sér við að skoða.