Safnasafnið

Safnasafnið annast fjölbreytt menningarstarf sem eitt af þremur mikilvægustu listasöfnum þjóðarinnar; í vörslu þess eru um 135.200 verk, (þar af ca. 200 eftir nútímalistamenn) búin til af ýmsu tilefni á 40 ára tímabili, einnig þúsundir gripa sem settir eru upp í sérdeildum og notaðir á sýningum til að skerpa myndhugsun gesta og fá þá til að sjá hlutina í nýju og víðara samhengi.

Safnasafnið er í stöðugri endurskoðun og sjálfsgagnrýni og tekur á sig skarpari mynd með hverju árinu sem líður; sú hugsun er ríkjandi að það eigi að höfða til barnsins í manninum jafnt sem barnanna sjálfra, efla í leik og starfi þau gildi sem ráða við sköpun listar, s.s. hreina sýn, sjálfsprottna framsetningu, móttækileik, undrun, kímni, saklausa frásögn og tjáningu.

Safnasafnið setur upp 10-12 nýjar sýningar á hverju ári til að viðhalda áhuga almennings og kynna þá ríku arfleifð sem það hýsir. Í safninu er fjölbreytt fræðslubókasafn og 67 m2 Lista- og fræðimannsíbúð sem stendur ferðafólki til boða á sumrin.  Gefnar hafa verið út tvær bækur um verk í safneigninni, og ný sýningarskrá kemur út á hverju vori.

Safnið er opið alla daga frá kl. 10:00 til 17:00 frá fyrstu helgi í maí til fyrstu helgar í september. Eftir það er hægt að panta hópheimsóknir en það fer þó eftir veðri. 

Boðið upp á fríar veitingar fyrir gesti.