Hlustaðu á sögur heimamanna

Vissir þú að hvalrekinn mikli á Ánastöðum 1882, bjargaði fólki víðsvegar um landið frá hungursneyð?
Hlustaðu á sögu frá Sólveigu Benjamínsdóttur sem er forstöðumaður safna í Húnaþingi vestra.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Birnu Pétursdóttur.

 

"Ég heiti Sólveig H. Benjamínsdóttir og er forstöðumaður safna í Húnaþingi vestra.
Etirfarandi texti er byggður á frásögn Guðmundar Jónssonar frá Ánastöðum árið 1939.
Sagan um hvalrekann á Ánastöðum, sem átti sér stað þann 25. maí árið 1882, byrjar í raun tveimur dögum fyrr. Þann dag var aftakaveður, stórhríð um allt land og hafís í kring um landið. Í óveðrinu rak ísinn nær landi og fyllti alla firði. Þann 25. maí var veðrinu byrjað að slota og tók þá bóndinn á Ánastöðum, Eggert Jónsson, eftir tugum hvala í vík nokkurri sunnan við bæinn. Hvalirnir voru fastir í ísnum sem rekið hafði að landi dagana áður. Eggert sá að þarna var kjörið tækifæri til veiða og fór að víkinni þar sem hvalirnir lágu. Hann lét binda um sig landfastann kaðal ef ske kynni að hann myndi falla í sjóinn. Hann notaði síðan sveðju til að skera á spiklag hvalanna. Skurðurinn var staðsettur við hjartað svo auðveldara væri að stinga beint á það, en með því móti drápust hvalirnir fljótt og örugglega. Við stunguna tóku þeir hinsvegar mikinn sársaukakipp svo að minnstu munaði að Eggert, sem þurfti að halda jafnvægi á hálum hafísnum, félli í sjóinn. Hvalirnir dóu þó samstundis og sukku. Að þessu öllu loknu þurfti að bíða í tvo til þrjá daga eftir því að hvalirnir kæmu aftur upp á yfirborðið þegar gas myndaðist í innyflum þeirra sem lét þá fljóta. Þá hófst hvalskurðurinn, sem bjargaði fólki víðsvegar um landið frá hungursneyð veturinn á eftir.
Þar sem hvalirnir ráku á land við Ánastaði sem voru í meirihlutaeigu Eggerts Jónssonar, átti hann stærsta hluta hvalrekans. Þegar menn mættu til að skera hvalinn niður ákvað hann að þeir skyldu eiga helming hvalsins sem þeir skæru. Þetta þótti mjög óvenjulegt og rausnarlegt því venjan var að skurðarmenn fengju aðeins á milli fjórðungs og þriðjungs af hvalskurðinum. Eggert leit hinsvegar ekki á hvalrekann sem sína einkaeign, og fékk aldrei greitt fyrir hann eins og venja var. Hann taldi hvalrekann guðsgjöf sem hann bæri ábyrgð á að koma til sem flestra heimila á þessum harðindatímum. Hvert einasta heimili í Húnavatnssýslu fékk úthlutað skammti af hval. Hluti hvalkjötsins fór einnig til Skagafjarðar, í norðurhluta Borgarfjarðar- og Mýrarsýslu sem og til Dalasýslu og norður á Strandir. Heilann hval sendi Eggert í Saurbæjarhrepp í Dalasýslu, en sá hreppur þótti verst settur í yfirstandandi harðindum.
Gjafmildi Eggerts þótti ómetanleg því enn erfiðari tímar tóku við. Allt næsta sumar var veðrið vont og stöðug norðanátt. Fram á mitt sumar var frost flestar nætur og snjóaði. Búskapur erfiður þessar aðstæður, bændur voru heylausir og fjárdauði mikill. Á mörgum bæjum lifði ekkert lamb og fullorðið fé féll einnig. Ekki bætti það ástandið að ekkert vöruskip kom á Húnaflóa um haustið, líkt og venja var. Nauðsynjavörur voru því orðnar ófáanlegar um haustið og hungursneyð vofði yfir. Eina fæða fólks víða í Húnaþingi þetta haust voru mjólkurvörur og hvalurinn góði frá Ánastöðum. Hvalrekinn mikli á Ánastöðum varð því til þess að bjarga mörgum sveitum frá yfirvofandi hungursneyð á þessu harðindaskeiði."