Hlustaðu á sögur heimamanna

Hefur þú upplifað jarðskálfta?
Hlustaðu á sögu frá Hólmfríði Halldórsdóttur sem bjó á Kópaskeri þegar stóri skjálftinn reið þar yfir árið 1976.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Birnu Pétursdóttur.

 

"13 janúar 1976 varð stór jarðskjálfti ( um 6,3 stig á ricther) á Kópaskeri og voru upptökin um 12 km frá þorpinu út á sjó og var þetta stærsti skjálftinn í hrinu sem hafði staðið frá 20 des.1975 þegar Kröflueldar hófust. Fundust þeir mest í Mývatni, Kelduhverfi og í suðurhluta Öxarfjarðar, en ekki svo mikið hér á Kópaskeri bara þeir stærstu og var sá öflugasti á jóladag.

Ég hafði farið í kaupfélagið eftir hádegi með son minn og vin hans sem ég var að passa,( þeir voru báðir að verða 5 ára ),var þá búðin full af fólki aðallega börnum,sem flest voru farin út þarna. Þegar ég var búin að versla sagði ég strákunum að bíða úti á meðan ég skryppi upp á skrifstofu sem var í sama húsi. Var ég rétt sest í stól við borðsendann hjá gjaldkeranum þegar við heyrðum miklar drunur og stökk hann þá á fætur og hinir 2 sem þar unnu líka ,en í sömu svifum fór allt á fleygiferð og hrundu möppur úr hillunum og mennirnir duttu á gólfið, ég reyndi ekki að standa upp en hélt mér dauðahaldi í borðið. Þá var klukkan 13:29. ekki veit ég hvað þetta stóð lengi en fannst mér sem húsið ætlaði aldrei að hætta að rugga eftir að skjálftinn var búin.

Þegar þetta var búið sögðum við öll í kór hvað gerðist í frystihúsinu, það var verið að skipa út kjöti og allmargir menn inni í frysti klefanum innan um kjöt skrokkana. Ég var líka hræddum að strákarnir hefðu farið aftur inní búðina því mamma hins stráksins var að vinna þar. En þeir höfðu gengt mér og voru báðir úti þegar ég kom út. Við löbbuðum svo heim og voru þeir eins og hérar hoppandi yfir sprungurnar í snjónum og ræddu um jarðskjálftann og var niðurstaða þeirra sú að best væri að berja hann með stórri sleggju svo hann hætti þessu.
Ég skildi hinn drenginn eftir heima hjá honum því pabbi hans var komin heim, þegar heim kom fórum við að laga til en ekki hafði mikið skemmst heima hjá mér svo við fórum í annað hús þar sem ég vissi að konurnar voru búnar að vera órólegar út af skjálftanum og voru þær fluttar burt með þeim fyrstu(en fljótlega var ákveðið var að flytja konur, börn og eldra fólk í burtu þar sem allar vatns lagnir voru rofnar og einnig var búist við öðrum stórum skjálfta ( sem reyndar kom aldrei) og ekki var vitað um ásigkomulag húsa.), en ég og sonur minn týndum upp af eldhúsgólfinu og settum allt heilt í hillur niður við gólf og sóttum svo snjó út og þrifum berja og rabba bara sultu af flísunum sem höfðu verið settar nýjar á rétt fyrir jólin.

Fórum við svo heim en þá var maðurinn minn komin heim en hann var á sjó svo til beint yfir upptökum skjálftans og sagði hann að það hefði verið eins og að keyra á fullri ferð á klett ,en þarna er ekkert sem hægt er að rekast á og ekkert annað skip á svæðinu, þeir voru allir niður í lúkar að borða og þegar hann kom upp sauð og bubblaði sjórinn allt um kring eins langt og hann sá,sonurinn lýsti aftur á móti skjálftanum fyrir pabba sínum að jörðin hefði hoppað eins og hálfviti. Um það leiti sem farið var að flytja fólkið burt var komin norðaustan stormur og farið að snjóa.
Um kl. 5 kom bíll sem ég og sonurinn ásamt annari konu með 3 börn áleiðis til Húsavíkur. Veðrið versnaði þegar leið á kvöldið og þegar við vorum að keyra á vestanverðu Tjörnnesi yfir 3 djúp gil var svo blindað að ég setti höfuðið út farþegamegin og bílstjórinn sín megin og sagði ég honum hvar vegkanturinn væri, ekki sást vegurinn öðruvísi og keyrðum við þannig til Húsavíkur. Þar gistum við um nóttina hjá bróður mínum ,en daginn eftir var komið gott veður og ætlaði ég til Akureyrar til systur minnar með póstbílnum en það var ekki pláss fyrir okkur með honum en við fengum far með vörubíl sem var að fara inn á Svalbarðsströnd eftir kartöflum,Við Ljósavatn var mjög stór skafl og þegar við vorum komin í gegnum hann fékk bílstjórinn fyrirmæli um að snúa við því það var komið svo mikið frost að ekki var hægt að flytja kartöflurnar á opnum bílpallinum eins og áætlað var. Hann dró nú póstbílinn yfir skaflinn og sneri svo við en ég og sonurinn fengum að sitja á póstpokum að Stóru Tjarnarskóla .Þar fengu allir að borða og kom svo bíll frá Akureyri á móti okkur svo að allir kæmust á leiðarenda.

Það var svolítið skrítið að hlusta á fólkið í póstbílnum tala um skjálftann, það voru komnar svo margar sögusagnir á kreik og allt sagt enn verr en það í rauninni var hvað varðaði skemmdir og meiðsl á fólki og hvíslaði sonurinn að mér “ mamma eru þau að tala um skjálftann heima var þetta svona?“Sem betur fer slasaðist enginn alvarlega, stærstu meiðsl voru eitt nefbrot og eitt tábrot fyrir utan mar og skrámur. Og var alveg ótrúlegt lán sem var yfir okkur öllum,og margar tilviljanir sem urðu til þess að ekki varð stórslys. Hálfum mánuði seinna fórum við svo heim aftur um leið og vatn komst á þorpið."