Hlustaðu á sögur heimamanna

Hvernig ætli sé að vera veðurtepptur á eyju eins og Drangey í nokkra daga? 
Hlustaðu á sögu frá Viggó Jónssyni sem hefur stundað veiðar og siglingar útí Drangey í fjöldamörg ár.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Vilhjálmi Bergmanni Bragasyni.

 

"Ég heitir Viggó Jónsson og hef stundað veiðar og eggheimtu í Drangey í yfir 40 ár. Það er hluti af lífinu, að veiða sér til matar.
Það hafa verið stundaðar veiðar í Drangey í fjöldamörg ár. Það tengist sterkt matarkistu Skagafjarðar þar sem um 200 manns bjuggu í birgjum í fjörunni í Drangey hér á árum áður (byggðu virki og bjuggu í tjöldum) á vorin og veiddu fugla og egg og réru út á miðin að veiða fiska líka. Þetta stóð í nokkrar vikur á vorin.
Það voru mikið bændur úr sveitunum sem stunduðu þessar veiðar þar sem Sauðárkrókur byggðist ekki almennilega upp sem kaupstaður fyrr en eftir 1850 – fólkið í sveitunum var búið að borða saltfisk, saltkjöt, súrmat og annað allan veturinn þannig að það var mikil gleði að sjá þegar bændurnir komu til baka á hestunum sínum með ferskan mat.
Í gamla daga voru allar eyjar notaðar til beitar því landið var ekki svona gróið eins og það er núna. Það var ný komið undan ís og það var kalt og því voru eyjarnar kjörinn staður til beitar.

Í dag eru veiðar enn stundaðar í eyjunni en ekkert eins og það var. Það er ekki hættulaust að veiða eggin því það hrynur á mann og það þarf að hafa varann á þegar sigið er í björgin. Veiðarnar hafa þó minnkað með árunum og ekki eins mikið og var hér áður fyrr.

Ég á 3 börn, 2 stráka og eina stelpu. Þau byrjuðu að fara með mér að veiða fugl um 6 ára aldurinn.
Veðrið getur breyst hratt og þótt maður komist útí eyju er ekki víst að maður komist strax heim aftur og hef ég nokkrum sinnum lent í því að vera veðurtepptur í eyjunni í nokkra daga. Var verðurtepptur í eitt skipti með dóttur minni sem þá var 11 ára og við voru þarna í 5 daga, það eina sem við áttum eftir að borða voru kartöflur – henni þóttu kartöflur ekki góðar. En ég bjó til þessa fínu kartöflustöppu sem var besta kartöflustappa sem hún hefur smakkað og talar enn þann dag í dag um hve góð hún var á bragðið. Algjört ævintýri og krakkarnir lifa og hrærast í þessu með manni, þetta eru minningar sem standa uppúr núna þegar þau eru orðin fullorðin.

Ég lenti líka í því einu sinni að það var þýskur ferðamaður sem fór með okkur útí eyju. Ætlaði að skreppa í einn dag en endaði á því að vera veðurtepptur þarna með okkur í 5 daga. Hann kom til baka sem breyttur maður og öðlaðist nýja sýn á veiðar á dýrum eftir dvölina með ókunnugum mönnum á þessari eyðu eyju."