Hlustaðu á sögur heimamanna.

Hefur þú upplifað orkuna svo hreina og sterka, eins og þú finn hjartslátt Móður jarðar?
Hlustaðu á söguna hennar Mirjam Blekkenhorst og hvernig örlögin sendu hana til Íslands þegar hún var um tvítugt.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Birnu Pétursdóttur.

 

"Ég var liðlega tvítug. Um sumarið hafði ég verið í fríi í sænska Lapplandi, bara ég og nokkrir vinir með bakpokana okkar. Við gengum í hrjóstrugri og villtri náttúru Sarek-þjóðgarðsins. Við drukkum ferskt vatn úr lækjum og ám og féllum í stafi yfir gylltu sólarlaginu yfir fjöllunum. Þessi upplifun hreyfði við mér. Ég hafði ekki upplifað neitt slíkt áður því ég ólst upp í þéttbýlu landi þar sem hver skiki er ræktaður.

Þegar ég snéri aftur til Hollands fannst mér ég vera utanveltu. Ég fann ekki tilganginn með náminu í listaháskólanum sem ég var skráð í. Tilfinningin að þurfa að komast í burtu frá þessu landi var yfirþyrmandi, bara eitthvert, út í náttúruna...

Forlögin sendu mig til Íslands.

Og þar lenti ég. Ég kom til Reykjavíkur snemma í nóvember. Eftir nokkrar vikur fann ég að ég þurfti að komast út úr borginni og í þetta skipti sendu forlögin mig til Norðurlands. Á Hólsseli, afskettum bóndabæ við jaðar hálendisins, vaknaði ég á fallegum, stilltum desembermorgni, og allt var þakið snjó. Orkan þar var svo hrein og sterk; ég fann hjartslátt Móður jarðar. Ég vissi að ég væri komin heim.

Í fyrsta skipti á ævinni leið mér eins og ég væri heima. En þremur árum síðar höfðu forlögin gert nýjar áætlanir fyrir mig og fyrir eiginmann minn, sem þá var kominn til sögunnar. Við þurftum að flytja.

Við byrjuðum að leita að stað sem var eins einangraður og hljóðlátur og staðurinn sem við höfðum vanist, stað þar við fyndum nægt beitarland fyrir kindurnar okkar og frjósamt land þar sem við gætum stundað búskap. Allt þetta fundum við hér, á Ytra Lóni á Langanesi. Þar var gnægð gróðurs fyrir kindurnar okkar og vatn og á full af silungi. Strendurnar voru þaktar rekaviði. Móðir jörð útvegaði allt sem við þörfnuðumst. Svo þangað fluttum við.

Ef ég á að vera hreinskilin fannst mér ég ekki eiga heima á Langanesi frá upphafi; þetta var ekki sama tilfinningin og á Hólsseli. Hún krafðist vinnu, þolinmæði og aðlögunarhæfni. Ég sá fuglana koma á vorin, en ég varð ekki vör við mikið fuglalíf. Ég var þakklát fyrir rekaviðinn, því við notuðum mikið af honum þegar við gerðum upp húsið. En ef til vill „skynjaði“ ég ekki almennilega hversu sérstakt þetta var.

Í hvert skipti sem ég snéri aftur til Hólssels táraðist ég. Það tók mig nokkur ár. Já, ég var með heimþrá. Ég saknaði gamla heimilisins míns og stundum Hollands. En ég vissi alltaf að það væri ástæða fyrir veru minni á Langanesi.

Við endurbyggðum Ytra Lón frá grunni eftir að húsin höfðu verið í niðurníðslu í mörg ár. Og við eignuðumst fjölskyldu. Fjölskyldan okkar stækkaði og nú eigum við fjögur börn. Þetta var mikil vinna, en landið var gjöfult og með hverju árinu sem leið áttaði ég mig betur og betur á ríkidæmi okkar.

Fuglar snúa aftur, einn af öðrum, á hverju vori. Þeir eignast unga, ala þá upp og fljúga síðan aftur til vetrarstöðvanna. Kindurnar okkar dvelja hjá okkur og sjá okkur fyrir afkomu ár eftir ár. Við lifum af landinu og í sátt við landið. Ég gæti ekki hugsað mér að lifa öðruvísi. Núna rekum við einnig gistiheimili og afdrep fyrir ferðamenn á landareigninni okkar. Við förum með gestina okkar í skoðunarferðir, segjum þeim frá bóndabænum og lífsstílnum okkar. Við sýnum þeim Langanes, fallega náttúruna, dýrin sem lifa þar villt og segjum þeim sögur. Ég nýt þess að kynnast fólki frá öllum heimshornum með þessum hætti. Það er stórkostlegt að þrátt fyrir að búa svona afskekkt fáum við tækifæri til þess að hitta allt þetta fólk. Fyrir það er ég afar þakklát.

Að taka þessa áhættu, að stökkva um borð í flugvél snemma á þrítugsaldri, var besta ákvörðun lífs míns. Orkan hérna við jaðar heimskautsbaugs er svo hrein, fólkið sem býr hér er svo jarðtengt og í nánu sambandi við umhverfi sitt. Fyrir mér var það ást við fyrstu sýn þegar ég kynntist Íslandi og Íslendingum og ég vissi að ég myndi aldrei hverfa aftur til „siðmenningarinnar.“