Hlustaðu á sögur heimamanna.

Ætli það séu draugar, forynjur eða jafnvel ísbirnir að þvælast á svæðinu?
Hlustaðu á sögu frá Sigrúnu Lárusdóttur sem er fædd og uppalin á Skaga.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Birnu Pétursdóttur.

 

"Selvík er vík á austanverðum Skaga, um 35 kílómetrum norðan við Sauðárkrók. Á eyðibýlinu Selnesi, við víkina norðanverða, má sjá greinilegar rústir verbúða. Þarna munu líka erlendir kaupmenn hafa verslað fyrr á öldum.
Selvík varð löggiltur verslunarstaður 27. nóvember 1903 og höfðu kaupmenn á Sauðárkróki þar verslunarútibú um skeið og ráku þar einnig fiskverkun.
Selvík kom við sögu á Sturlungaöld en þaðan sigldi floti Kolbeins unga áleiðis til Vestfjarða um Jónsmessu 1244 en mætti skipum Þórðar kakala á miðjum Húnaflóa og hófst þá Flóabardagi, eina sjóorrusta Íslandssögunnar.
Síðasti ábúandi á Selnesi var Jón Norðmann Jónasson, þekktur maður, fræðimaður í fornum fræðum og persónulega kunnugur ýmsum draugum á svæðinu. Hann var fæddur árið 1889 en lést árið 1976. Hann var kennari í Reykjavík á veturna en dvaldi á Selnesi á sumrin. Oft var reynt að koma á hann ódælum strákum sem töldu tíma sínum miklu betur varið í eitthvað annað en nám. Jón var laginn að komast að við þessa drengi og þegar hann fór norður að Selnesi að vorinu, þá var hann oft með hóp af þeim með sér sem hann reyndi að koma til manns yfir sumarið og það gekk ljómandi vel og voru þeir yfirleitt betri eftir sumarið og veruna hjá Jóni. Jón endaði kennslu sína á því að kenna stilltum sveitabörnum sem voru þarna í kringum hann. Ég var ein af hans nemendum og hann var skemmtilegur kennari og einstaklega gaman að hlusta á draugasögurnar hjá honum á kvöldin. Við vorum á heimavist og hann lét dæluna ganga. Eftir því sem leið á söguna, þá fóru börnin að draga fæturna uppundir sig á rúmstokknum því það var aldrei að vita hvað var undir rúminu og gat gripið í. Jón var ekki smeikur við drauga, forynjur eða nokkurn skapaðan hlut.
Það var eitt sem hann óttaðist öðru fremur og hafði mikla andstyggð á – það voru Rússar. Hann reiknaði alltaf með því að þeir myndu gera innrás hér á landi og eitt kvöld kemur skip inná Selnesvíkina og beinir ljóskösturum upp Selnesbjörgin. Þetta var varðskipið Albert sem var að reyna nýja ljóskastara! Nú fór um Jón. Hann sankaði saman strákastóðinu sem var hjá honum og hlóð þeim á Farmal Kubb traktor sem hann átti, þeir stóðu aftaná og einhverjir reyndu að hlaupa með. En hann ætlaði að komast undan á flótta áður en Rússarnir tækju land, en svo komst hann að því að þetta væru nú bara Íslendingar á skipinu svo það slapp nokkuð vel.

Skagi er það svæði á Íslandi þar sem mest er um ísbjarnakomur. Það hafa komið 3 birnir uppá Skaga síðustu ár. Þegar ég var krakki þá voru hafísár og ég var send að sjónum til að smala féinu, það þurft að koma féinu heim þótt það gætu verið birnir. Enginn var að segja mér að vera skelfingin uppmáluð, en nota samt augun, höfuðið og skynsemina ef ég skyldi sjá eitthvað ókennilegt dýr, þá væri best að koma sér heim á leið og láta rollurnar eiga sig. En það kom nú aldrei til en það eru til margar fleiri sögur um ísbjarnakomur á Skaga."